Kraftmiklir frumkvöðlar á Akranesi

Atvinnu- og ferðamálanefnd Akraneskaupstaðar stóð fyrir frumkvöðlakvöldi á Gamla Kaupfélaginu og má með sanni segja að kvöldið hafi heppnast afar vel. Yfir eitt hundrað manns mættu á fundinn sem haldinn var mánudagskvöldið 17. mars.
Ingibjörg Valdimarsdóttir formaður atvinnu- og ferðamálanefndar opnaði fundinn og kynnti markmið fundarins sem er haldinn í kjölfar stefnumótunarfundar um atvinnumál sem var haldinn í lok nóvember á síðasta ári. Fjölmargar hugmyndir kviknuðu á þeim fundi sem verið er að vinna að víðsvegar í samfélaginu.
Fyrst tók til máls Karen Emilía Jónsdóttir sem rekur heildsöluna Kaja Organic hér á Skaganum. Karen fjallaði um tækifærin sem felast í framleiðslu á lífrænt vottuðum matvælum. Næstur til máls var Magnús Freyr Ólafsson sem fjallaði um sjóstangaveiði en hann hefur stofnað félagið Akranes Adventures og hyggst bjóða uppá sjóstangaveiði í sumar þar sem siglt verður úr Akraneshöfn. Næst stigu á svið systkynin Helga Ingibjörg og Kristján Hagalín en þau ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum stofnuðu nýlega fyrirtækið Wild West Tours sem mun bjóða uppá ævintýraferðir um Vesturland en fyrirtækið er staðsett á Akranesi. Að lokum tók Ketill Már Björnsson til máls og kynnti hugmyndina Ísland í 3vídd og Akranes á kortið. Hugmyndin gengur fyrst og fremst út á að gera líkan af Íslandi í hlutföllunum 1 á móti 4000 þannig að fólk gæti gengið t.d. inn í firði og dali. Hann hefur látið hanna teikningu af húsnæði undir líkanið og telur svæðið þar sem sandþróin er í dag henta best fyrir starfsemina.
Eftir hlé steig Rakel Pálsdóttir söngkona á svið og flutti dásamlegan söng fyrir gesti. Því næst var komið að örkynningum frá fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Frumkvöðla- og nýsköpunarsetursins Hugheima, Frumkvöðlasetursins á Bifröst og Samtakanna Vitbrigði Vesturlands. Kynntu þeir allir starfsemi sína og tóku við spurningum úr sal.
Fundarstjóri var Sævar Freyr Þráinsson fulltrúi í atvinnu- og ferðamálanefnd.

Powered by WPeMatico